Þriggja daga sælkeraveisla í september, sem Albert Eiríksson leiðir af sinni alkunnu natni.

Haustið er tími uppskeru og matarnosturs. Lömb koma af fjalli, ber eru lesin af lyngi; það kólnar í veðri og rétt að hlúa að sjálfinu og gera vel við sig í mat og vellíðan.

Á Tröllaskaga  nýtur búfénaður  grösugra dala í skjóli hrikalegra fjalla og í hlíðum fjalla vaxa ber og grös sem nýtast til matargerðar. Úti fyrir skaganum eru gjöful fiskimið sem hafa lagt grunn að þorpum og bæjum á austanverðum Tröllaskaga, en nyrst á skaganum eru Fljótin í matarkistunni Skagafirði.

Á haustdögum er boðið til veislu á Tröllaskaga. Æ fleiri ferðalangar hafa á undanförnum árum uppgötvað Tröllaskagann sér til útivistar og heilsubótar, en undir styrkri leiðsögn Alberts Eiríkssonar matgæðings með meiru munum við rása um nyrstu byggðir Tröllaskaga í Fljótum og á Siglufirði, kynnast svæðinu og sögu þess og njóta alls hins besta sem svæðið býður upp á í mat og drykk. Við stundum þægilega útivist, horfum upp í hausthiminninn í sundlauginni á Sólgörðum og njótum atlætis og hlýju í mat og gistingu á Sóta Lodge.

Þetta er hinn fullkomni upptaktur að notalegu hausti.  Verið velkominn í þessa veislu með okkur en hafið í huga að það eru bara örfá sæti í boði.

Dagsetningar

9.-12. september 2021

Innifalið í verði

 • Allar máltíðir á meðan á ferð stendur
 • Gisting á Sóta Lodge
 • Aðgangur og leiðsögn í Síldarminjasafninu
 • Leiðsögn alla ferðina
 • Aðgangur í Barðslaug (við hlið Sóta Lodge)
 • Sælkerastopp í Súkkulaðikaffihús Fríðu
 • Akstur

Ekki innifalið í verði:

 • Drykkir með mat

Hvað á að koma með: 

 • Þægileg útivistarföt
 • Regnjakka og regnbuxur
 • Gönguskór.
 • Húfa / vettlingar
 • Berjasókn og góða skapið

Dagskrá

(gæti þurft að aðlagast veðurfari að einhverju leyti)

Fimmtudagur

16:00 Mæting á Sóta Lodge

17:00 Matgæðingurinn Albert kynnir dagskrána framundan, tími fyrir sund og huggulegheit.

19:00 Kvöldmatur

Föstudagur

08:00 Stutt morgunganga – lesið í grösin í Barðslandi

08:45 – 10:00 Morgunmatur

10:30 Heimsókn á Brúnastaði, ostagerð og kjötvinnsla í Fljótum

12:00 Gönguferð um skógrækt Siglufjarðar

12:30 Lautarferð og hádegisverður

13:30 Rölt að Evangerrústunum austan Siglufjarðar og sagan rakin

14:30 Heimsókn í Síldarminjasafnið á Siglufirði

15:30 Sælkeraheimsókn á Kaffi Fríðu

16:20 Brottför á Sóta Lodge

17:00 Slökun – sundlaugarferð og spjall

19:30 Þriggja rétta kvöldverður að hætti hússins

Laugardagur

08:00 Stutt morgunganga – trítlað utan í Akraás og skrokkurinn vakinn

08:45 – 10:00 Morgunmatur

10:30 Brottför í berjalendur Fljóta, með lautarferð og hádegismat þegar hentar

14:30 – 16:00 Berjavinnsla – Albert leiðir okkur í allan sannleik um berjanytjar.

16:00 Gönguferð að Hraunum

18:00 Slökun – sundlaugarferð og spjall

19:30 Þriggja rétta kvöldverður að hætti hússins

Sunnudagur

08:00 Morgunmatur

10:00 Rölt um Haganesvík

12:00 Léttur hádegismatur á Sóta Lodge, gestir kvaddir með virktum.

13:30 Brottför