Hver árstíð á sitt bragð og sína lykt. Á vorin bíðum við þess að gróandinn hefjist að nýju en í gegnum tíðina höfum við nýtt okkur fuglsegg til að fá dýrmætt ferskmeti að liðnum löngum vetri. Sumarið ber með sér ilmandi laufblöð og jurtir sem í árhundruð hafa verið notuð til að bragðbæta mat og lækna mein. Síðla sumars bætast berin við og uppskera haustsins kitlar bragðlaukana fram á vetur, en haustið er líka tíminn til veiða.