Gestir okkar geta annað hvort kannað umhverfið á eigin vegum eða notið þjónustu sérfróðra ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Við leggjum mikla áherslu á ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu, þar sem virðing fyrir náttúru er í hávegum höfð og ávinningur okkar nærsamfélags í forgrunni.

Afþreying

Fjallaskíði

Á Tröllaskaga er vagga skíðamennsku á Íslandi. Það er góð og gild ástæða fyrir því að helstu ævintýrafyrirtæki landsins bjóða uppá fjallaskíðaferðir á svæðinu. Landslagið býður upp á auðvelt aðgengi að brekkum og yfirleitt nægan snjó frá fjallstoppum til sjávarmáls þar til um miðjan maí mánuð og jafnvel fram í júní, með brekkum sem ættu að henta flestu skíðafólki.

Gönguskíði

Fyrir aðeins fáum áratugum voru skíði ákjósanlegur vetrarferðamáti fyrir heimafólk í Fljótunum. Samfélagið snjóaði inni mánuðum saman en íbúar hikuðu ekki við að skíða á milli húsa. Þeir stofnuðu skíðafélag og ferðuðust til annara landshluta til að keppa á skíðamótum. Þeir mynduðu góð tengsl við skíðafólk á Ísafirði, Egilsstöðum og á öðrum stöðum á landinu. Í dag skíða heimamenn ekki af nauðsyn, heldur af ástríðu.

Heitar laugar

Sólgarðalaug er í næsta húsi við Sóta, dæmigerð íslensk sveitalaug sem hefur þjónað íbúum Fljóta í áratugi. Fjöldi annarra lauga eru staðsettar í næsta nágrenni Sóta, þar á meðal hin vel þekkta sundlaug á Hofsósi. Grettislaug í Skagafirði og heitu pottarnir í Hauganesi í Eyjafirði hafa einnig aðdráttarafl.

Hjólaferðir

Í nágrenninu er enginn skortur á bæði nýjum og gömlum vegum sem gaman er að hjóla. Þjóðvegirnir eru malbikaðir og tilvaldir fyrir hraðskreiðu racer-hjólin. Fyrir malarvegina og kindagöturnar mælum við með fjallahjólum með góðri fjöðrun. Við eigum tvö fjallahjól til afnota fyrir gesti okkar.

Hestaferðir

Við vinnum náið með vinum okkar og nágrönnum í Langhúsum. Síðan 1997 hafa hjónin Lukka og Láki boðið reyndum sem óreyndum knöpum upp á hestaferðir með leiðsögn upp í dalinn okkar eða niður á ströndina í yndislegar ferðir undir miðnætursólinni.

Gönguferðir

Fallegar gönguleiðir eru allt í kring um Sóta og nægir að stíga yfir þröskuldinn til að njóta náttúru og fjallaleiða. Jafnframt er hægt að komast í mismunandi landslag ef keyrt er 15 mínútur í hvora átt. Vestan við okkur Skagafjarðar megin er flatara landslag, en þar er til dæmis gaman að ganga út í Þórðarhöfða. Austan við okkur eru hrikaleg fjöll Tröllaskaga, stærsta og hæsta samfellda fjallgarðs á Íslandi. Þar er fjöldi stórfenglegra gönguleiða sem ættu að henta flestum, meðal annars leiðin um Siglufjarðarskarð, fyrsta vegatengingin milli Skagafjarðar og Siglufjarðar.

Náttúruupplifanir

Fljótin eru tilvalin til hvers konar náttúruupplifunar og uppgötvana allt árið um kring. Bjartir sumardagar eru tilvaldir til að skoða villt blóm og finna ætar jurtir og plöntur í fjallshlíðum. Í fjörunni má finna margar tegundir þara auk kræklings og krabba. Í lok sumars fyllast hlíðar af gómsætum bláberjum sem oft er hægt að tína fram á haust. Á haustin birtast norðurljósin á himnum og þeirra má iðulega njóta langt fram á vorið. Fjölbreytt dýralíf birtist okkur árið um kring, mófuglar og sjófuglar, tófur og hnúfubakar.

Söfn

Þrjú af þekktari söfnum landsins eru í seilingarfjarlægð frá Sóta.
Glaumbær er fornt höfuðból og kirkjusetur og þar hafa búið miklir og ríkir höfðingjar frá landnámsöld.

Vesturfarasetrið á Hofsósi var stofnað til heiðurs Íslendingum sem fluttust til norður Ameríku á árabilinu 1850-1914.

Þekktasta safnið á öllu Íslandi er svo kannski Síldarminjasafnið á Siglufirði sem segir sögu Síldarævintýrsins sem stóð yfir í nærri heila öld og hafði mikið að segja um hvernig nútímasamfélagið þróaðist hér á landi.

Kayak og standbretti

Það eru þrjú vötn í kringum okkur sem og auðvitað Norður-Atlantshafið sjálft. Eftir því hvaða vindátt er og árstími er yfirleitt hægt að finna hentugan stað til að róa. Hægt er að leigja kajaka á Brúnastöðum eða Siglufirði.

Brimbrettabrun

Brimbrettabrun hefur yfirleitt verið eitthvað sem Íslendingar tengja helst við Hawaii, en það hefur breyst hægt og rólega á undanförnum árum eftir því sem brimbrettafólk færir sig sífellt yfir í kaldara vatn. Sumir af þekktari brimbrettastöðum á Íslandi eru staðsettir hér í nágrenni okkar, í Hlöðnuvík og skammt frá Ólafsfirði.

Bátsferðir

Í Skagafirði eru tvær eyjar sem aðeins eru aðgengilegar með bát, Drangey og Málmey. Báðar eiga sér langa sögu og bjóða upp á magnaðar náttúruupplifanir, frá basaltstöplum til magnaðs sjófuglalífs.

Á Eyjafjarðarsvæðinu eru líka spennandi möguleikar en þaðan er hægt að taka bát til að heimsækja Hrísey eða jafnvel Grímsey sem liggur á heimskautsbaugnum sjálfum. Hvala- og lundaskoðun og sjóstangveiði eru einnig vinsælar afþreyingar frá Dalvík.

Húsdýragarður

Nágrannar okkar á Brúnastöðum eru með einstakan húsdýragarð þar sem gestir fá að upplifa ekta sveitalíf. Börn fá að komast í návígi við og klappa dýrum af ýmsu tagi, geitum, svínum, kanínum, hænum og yrðlingum.

Veiðar

Hér í Fljótum eru tvær þekktar fluguveiðiár. Fljótaá er framúrskarandi laxveiðiá en þar má líka veiða bleikju fyrir þá sem vilja ná sér í soðið. Flókadalsá er að sama skapi fullkomin fyrir fjölskyldur með ferskvatnsfiska af öllum tegundum. Bændur á Tröllaskagasvæðinu selja margir veiðileyfi til veiða í vötnum og ám, og leyfi til gæsa- eða rjúpnaveiða á haustin.

SkíðasvæðI

Stundum langar manni bara til að skíða eins margar ferðir og mögulegt er og þá er hið frábæra skíðasvæði í Skarðsdal í Siglufirði góður kostur. Á svæðinu eru fjórar lyftur og 10 brekkur fyrir byrjendur og lengra komna, ævintýraleið, hólabrautir, bobbbraut og pallar. Svæðið er flóðlýst yfir dimmasta tímabilið og þykir eitt hið besta á landinu.

Dagsferðir

Svæði Siglufjarðar bíður upp á einstaka möguleika þegar kemur að dagsferðum.