Sjálfbærnimarkmið Sóti Summits  

Við sem stöndum að Sóta Summits erum meðvituð um hversu jákvæð áhrif ferðaþjónusta getur haft: á staðbundinn efnahag, á samskipti milli fólks af ólíkum uppruna, á virðingu fyrir nærumhverfi okkar og á vellíðun og lífsgæði þáttttakenda. Við erum hins vegar líka meðvituð um að ferðaþjónustan getur haft neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag þegar ekki er staðið rétt að málum.   

Við viljum vera ábyrg frá upphafi og höfum skilgreint okkar sjálfbærnimarkmið. Okkar metnaður er að auka kröfurnar á okkur sjálf eftir því sem við eflumst í okkar rekstri og bjóða þannig sífellt betri þjónustu og upplifun.

Sjálfbærnimarkið okkar: 

  • Kerfisbundin nálgun og samþætting  við rekstur 
    • Þekking og fagmennska starfsfólksins okkar tryggir öryggi gesta og jákvæða upplifun. Við söfnum upplýsingum frá gestum okkar og nýtum þær til að bæta þjónustuna í sífellu. 
    • Við fylgjum ábyrgri innkaupastefnu þar sem áhersla er lögð á ráðdeildarsama nýtingu aðfanga og viðskipti í heimabyggð. Við fylgjum staðfestum viðmiðum í þessum efnum eins og unnt er. 
    • Við störfum innan ramma laga og opinberra reglna og erum með öll leyfi sem þarf til starfseminnar. 
  • Samfélagsmarkmið og stuðningur við nærsamfélag 
    • Við leitumst við að ráða fólk til starfa sem hefur tengingu við okkar nærumhverfi og sköpum þannig störf í heimabyggð. 
    • Við verslum í heimabyggð að því marki sem hægt er. 
    • Við erum í samstarfi við rekstrar- og þjónustuaðila í nærumhverfi okkar. 
    • Við tökum virkan þátt í markaðssetningu svæðisins okkar. 
  • Menningarleg sjónarmið 
    • Við hvetjum starfsfólk okkar til að dýpka þekkingu sína á menningu og sögu Norðurlands og Tröllaskaga. 
    • Við samþættum menningarlega afþreyingu í ferðir okkar. 
    • Við leitumst við að efla samskipti gesta okkar við heimamenn. 
  • Umhverfismál 
    • Við hvetjum gesti okkar til ábyrgrar hegðunar í kaldri og viðkvæmri náttúru Íslands. Hér, umfram allt er mikilvægt að minnast einkunnarorðanna: „Við tökum ekkert nema ljósmyndir – og skiljum ekkert eftir nema sporin“. 
    • Við leggjum sérstaka áherslu á að upplýsa um hægt niðurbrot lífrænna efna í náttúru Íslands og mikilvægi þess að  ekkert slíkt sé skilið eftir á víðavangi. 
    • Við nýtum auðlindir og aðföng skynsamlega og með ábyrgum hætti, allt frá skrifstofu til farartækja. 
    • Við elskum umhverfi okkar og landslagið sem við vinnum í. Við umgöngumst það af virðingu og væntumþykju og hegðum okkur þannig að athafnir okkar í dag séu ekki sýnilegar gestum morgundagsins.