Upplifðu Siglufjörð í fjallahjólaferð í sumar!
Einstaklega skemmtileg fjallahjólaferð þar sem gestir fá að kynnast því besta sem fjallahjólamennska býður upp á. Hvers kyns hjólamennska á vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi og á Siglufirði eru kjöraðstæður til að kynna sér þessa skemmtilegu íþrótt – eða spreyta sig á nýjum brekkum.
Ekki skemmir fyrir að rafknúin hjólin gera öllum kleift að reyna sig við hvers kyns brekkur. Við bjóðum gestum okkar upp á Moustache hjól. Þetta eru léttbyggð frönsk hjól sem þykja með þeim betri sem hægt er að prófa. Þetta er tilvalin fjölskylduskemmtun, ferð sem er skipulögð þannig að hún henti byrjendum jafnt sem lengra komnum.
Lýsing
Ferðin hefst á skrifstofu okkar við Aðalgötu á Siglufirði, þar sem við hefjum leika með stuttri kynningu á raffjallahjólum áður en lagt er af stað. Við hjólum síðan gegnum Siglufjarðarbæ, um sumarbústaðahverfið austan í firðinum og að inndölum Siglufjarðar, Skútudal og Hólsdal, þar sem við beygjum af malbiki og fylgjum gömlum slóða við rætur Hólshyrnu og heimsækjum líka skógræktina í Skarðsdal ef tími vinnst til. Slóðin býður upp á allt sem góð fjallahjólaferð þarf: drullu, gras, mosa og auðvitað malarvegi. Á þessum tímapunkti ættu flestir að vera orðnir vanir hjólunum og við hjólum eftir gamla veginum upp í Hvanneyrarskál. Þar er gott að setjast niður og njóta útsýnisins yfir fjörðinn og fjallahringinn.
Eftir ferðina munu þátttakendur hafa fengið innsýn inn í heim fjallahjólamennskunnar, prófað hágæðahjól, séð náttúru Siglufjarðar frá nýju sjónarhorni og skemmt sér konunglega!
Tímasetningar:
Daglega kl. 9 og 15
Innifalið í verði
– Hágæða raffjallahjól
– Hjólaleiðsögn
– Fjallahjólahjálmur
Hvað á að koma með
– Léttur bakpoki
– Gönguskór / Góðir íþróttaskór
– Þunnir hanskar
– Nesti (gott að taka með létt nesti og vatnsflösku)