Komdu með okkur í þægilega og áhugaverða gönguferð um sagnaslóðir á Tröllaskaga!

Við bjóðum göngugörpum í einstaka gönguferð í fylgd Björns Z. Ásgrímssonar og Sóleyjar Ólafsdóttur um söguslóðir bókar Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini. Í ferðinni gefst þátttakendum tækifæri til að endurupplifa sögu Hallgríms og setja sig í spor sögupersóna.

Björn Z.  er öllum hnútum kunnugur á norðanverðum Tröllaskaga og þekkir hverja þúfu. Hann er höfundur göngubókarinnar Fjallabyggð og Fljót sem fjallar um þetta svæði og ásamt Sóleyju hefur hann þrætt flestar leiðir sem þar er hægt að fara. Í þessari ferð verður gengið á Hreppsendasúlur og leiðirnar um Möðruvallaháls og Botnaleið þræddar.

Gist er á Sóta Lodge í Fljótum og gert út þaðan dag hvern. Þáttttakendur koma á eigin bílum og er gert ráð fyrir að sameinast sé í bíla, en bílstjórar verða sóttir á áfangastað við lok göngu 26. og 27.

Þetta er ljúf og þægileg gönguferð í fagurri náttúru Tröllaskaga um dásamlegar útsýnisleiðir.

Innifalið í ferð

Gisting á Sóta Lodge, aðgangur að sundlaug, heitum potti og sánu

Allar máltíðir á meðan á ferð stendur (3 kvöldmáltíðir, 3 morgunverðir, 3 hádegisnesti)

Fararstjórn í gönguferð og skutl skv. ferðatilhögun

Verð

120.000 kr/mann í tvíbýli – örfá sæti laus!

Hafið samband við info@sotisummits.is vegna bókana.

 

Ferðatilhögun

24.7. Mæting á Sóta Lodge

Afslöppun fram að kvöldverði kl. 19:30. Fundur með fararstjórum.

25.7. Hreppsendasúlur

Gengið á Hreppsendasúlur af Lágheiði. Þetta er hæsta fjall  á fjallshryggnum sem teygir sig til norðurs frá Lágheiði allt til Sigluness. Fjallið er hátt og tignarlegt með frábæru útsýni. Upphaf göngu er á Lágheiðinni. Af tindinum er síðan gengið niður að eyðibýlinu Hreppsendaá. Ganga: 8 km. Hækkun: 700 m. Göngutími: 4-5 klst. Gert er ráð fyrir að göngufólk sameinist í bíla og að bílar verði skildir eftir við áfangastað til að komast á milli.

26.7. Möðruvallaháls

Gönguferð dagsins hefst við golfvöllinn í Skeggjabrekkudal í Ólafsfirði yfir Möðruvallaháls til Héðinsfjarðar. Garðsánni fylgt með jafnri hækkun að hálsinum og síðan haldið til norðurs niður í Héðinsfjörð. Á leiðinni niður fjörðinn í átt að Héðinsfjarðarvatni verður litið á mannvistarleifar nokkurra eyðibíla og saga byggðarinnar rifjuð upp. Ganga: 16 km. Hækkun: 560 m. Göngutími: 6-7 klst. Bílar verða skildir eftir í Skeggjabrekkudal og bílstjórum skutlað til að sækja í lok göngu.

27.7. Botnaleið

Gangan hefst við afleggjarann að Lambanes-Reykjum í Fljótum og síðan gengið spölkorn inn á gamla þjóðveginn til Siglufjarðar. Stikum er fylgt áleiðis að Torfdalsá, síðan að Stóruskál og áleiðis upp á Botnaleiðarfjall eftir Bolahrygg kenndan við Þorgeirsbola. Frá Botnaleiðarskarði er gott útsýni yfir Fljót og til Siglufjarðar. Að lokum er gengið niður svokallaða Botna og Blekkilsá fylgt niður í Hólsdal í Siglufirði þar sem hópurinn er sóttur og ekið að Sóta. Vaðið/stiklað yfir Torfdalsá. Heimferð. Ganga: 8 km. Hækkun: 700m. Göngutími: 4-5 klst.