Allt að gerast á Tröllaskaga – komdu í þyrluskíðun á sumardaginn fyrsta!

Við höfum verið í kuldapolli á Norðurlandi með bláum hitatölum allsráðandi. Núna er útlit fyrir aðhlýindi og að vorið láti á sér kræla. Það verður samt nægur snjór í fjöllum komandi vikur og boðar gott fyrir þyrluskíðatímabil Sóta og Summit Heliskiing, sem hefst á sumardaginn fyrsta. Bókanir eru í fullum gangi og um að gera að tryggja sér pláss sem fyrst!

Undanfarnar vikur hefur fjallaskíðafólk alls staðar að notið alls hins besta sem norðanverður Tröllaskagi hefur upp á að bjóða. Sífellt hefur bætt í snjóinn og gestir okkar á Sóta hafa upplifað sæluna sem fylgir því að skíða í nýföllnu púðri og glampandi sólskini.

Það hefur verið einstaklega gaman að fá í hús glaða og útitekna ferðalanga með glampa í augum eftir ævintýri dagsins. Við erum þakklát fyrir hvern gest sem kveður sæll og ánægður, það hvetur okkur til dáða og yljar um hjartarætur.

Leiðsögufólkið okkar er að koma norður í æfingadagana sem eru undanfari tímabilsins og það verða fagnaðarfundir. Við erum afar stolt af því samstarfsfólki sem vinnur með okkur, enda leggja þau allan sinn metnað í að gera þyrluskíðaferðir Sóta að öruggri, spennandi og eftirminnilegri upplifun.

Ægifagurt og fjölbreytt landslagið á Tröllaskaga

Tröllaskagi býður upp á skíðalandslag við allra hæfi. Hér eru frábærar aðstæður fyrir alla sem vilja upplifa þá einstöku skemmtun sem þyrluskíðun er. Fjölbreytnin í hlíðum skagans býður upp á frábær tækifæri til að skapa dagskrá sem hentar alls konar skíðafólki. Tröllaskaginn gefur ekki síður svölustu ofurhugunum tækifæri að virkja adrenalínið til hins ýtrasta. Við leggjum metnað í að meta aðstæður hverju sinni og skipuleggjum dagskrána með öryggi og hámarksupplifun gesta okkar að markmiði.

Komdu með okkur í þyrluskíðaævintýri í vor – við hefjum okkur a loft á sumardaginn fyrsta og fögnum vetrarlokum með sól í hjarta á drifhvítum snjó.

Það er ekki eftir neinu að bíða með að bóka bestu upplifun vorsins – skelltu þér á skíði á sumardaginn fyrsta!