Þriggja daga vellíðan, með endurnærandi floti, hæfilegu labbi, skemmtilegum heimsóknum og örlitlu ævintýri

Það er fátt betra en að næra líkama og sál í friðsæld og fegurð.  Í streituhlöðnu lífi nútímans er nauðsynlegt að geta leitað inn á við, fundið hlýju og mýkt, andað að sér súrefnis og leitað jafnvægis í góðum félagsskap. Sóti Summits býður til þriggja daga heimsóknar í Fljótin, þar sem áherslan er á að lifa og njóta.

Upplifun og næring

Farið er í léttar og fræðandi gönguferðir og  kynnisferð um svæðið með áherslu á að kynna allt það sem nyrstu strandir Tröllaskaga bjóða up á í mat og drykk. Þar eru öll skynfæri virkjuð til hins ýtrasta, sem og mismunandi birtuskilyrði.

Síðast en ekki síst er Barðslaug við hlið Sóta Lodge nýtt óspart til að endurnæra líkama og sál.

Á kvöldin er svo boðið til ljúffengrar þriggja rétta máltíðar við kertaljós á Sóta Lodge, þar sem allur metnaður er lagður í að tryggja að gestir njóti, slaki og gleðjist.

Fljót í Skagafirði

Fljótin bera nafn með rentu – héraðið skartar fjórum stöðuvötnum, hvert öðru fegurra, þekktum veiðiám og óteljandi minni vatnsföllum, tjörnum og lækjum. Úti fyrir ströndum mætir Norðuríshafið óendanlegum sjóndeildarhringnum. Hér er vatnið, undirstaða alls lífs, allt um kring og innan um.

Í þessari ferð munum við beina sjón og skynjun að fjölbreytilegum birtingarmyndum þess, rölta strendur og árbakka, skoða fjörur og fossa.  Við njótum líka vatnsins heita úr iðrum jarðar með endurnærandi flotstundum í Barðslaug, sem byggð er við náttúrulega heita uppsprettu. Þar hefur verið sundlaug síðan 1895 og jafnvel lengur, að sögn fróðra manna.

Flotstundir í Barðslaug

Sóti Summits hefur leitað í smiðju Flothettu  og mun bjóða gestum upp á einstakar friðarstundir í Barðslaug, þar sem þátttakendur verða leiddir gegnum slakandi og nærandi upplifun af þjálfuðum leiðbeinanda.

Bókaðu núna og leyfðu þér að fljóta mjúklega inn i veturinn.

Innifalið í verði

  • Gæðagisting á Sóta Lodge
  • Allar máltíðir meðan á ferð stendur
  • Leiðsögn reynds leiðsögumanns
  • Aðgangseyrir og kynningar sem dagskráin felur í sér
  • Aðgangur að Barðslaug og flotstundir

Ekki innifalið

  • Slysatryggingar
  • Áfengir drykkir

Dagsetningar

  • 29. – 31. október
  • Fleiri dagsetningar mögulegar ef aðsókn er næg
  • Einnig er hægt að óska eftir sér dagsetningum fyrir hópa – info@sotisummits.is

Verð: (lágmarksfjöldi í ferðina er 6 manns)

  • 78.900 isk á mann – miðað við tvo í herbergi  
  • 93.900 isk á mann – miðað við einstaklingsherbergi

Einkaferðir

  • Viltu sérferð fyrir þig og/eða hópinn þinn?
    Sendu okkur línu á info@sotisummits.is

Fyrir hverja er ferðin? 

  • Ferðin hentar öllum þeim sem hafa áhuga á góðum mat, góðum félagsskap og nærandi afþreyingu til sálar og líkama.

Hvað á að koma með?

  • Sundföt
  • Gönguskó
  • Göngubuxur (þægilegar buxur til að ganga í, alls ekki gallabuxur)
  • Vatnsheldar buxur
  • Vatnsheldan jakka
  • Þægilegan fatnað til léttrar útivistar

Dagskrá

Föstudagur

Eftir að gestir hafa skráð sig inn á hótelinu verður farið í stutta göngu um nágrenni Sóta Lodge, þar sem við lesum í landslagið og kynnumst hvert öðru. Við stillum svo saman strengi í Barðslaug í fyrsta sinn og njótum að síðustu ljúffengrar þriggja rétta kvöldmáltíðar.

Laugardagur

Að loknum ljúfum morgunverði og mjúku rölti um nágrennið, er lagt af stað í kynnis- og matarferð um norðanverðan Tröllaskaga. Við munum leita uppi staðbundna framleiðslu, heimsækja söguslóðir og leita uppi íslenkt vatn í sínum aðskiljanlegustu birtingarformum.

Á Tröllaskaga er úr svo ótalmörgu að velja þegar kemur að mat og munngát, má þar nefna ostagerð og kjötvinnslu á Brúnastöðum; súkkulaðigerð Fríðu; bruggverksmiðjuna Segul … því munu aðstæður og væntingar stýra endanlegri ferðaáætlun hópsins.

Deginum lýkur með yndislegri flotstund í Barðslaug og dásamlegum þriggjarétta kvöldmat að hætti hússins.

Sunnudagur

Á lokadegi er boðið upp á morgunstund í lauginni fyrir eða eftir morgunverð. Gestum gefst kostur á að spreyta sig á fjallahjólum (gegn aukagjaldi) ef veður leyfir og renna í Haganesvík, þar sem natni húseigenda ber virðingu fyrir staðnum og sögunni fagurt vitni. Fyrir þá sem þetta kjósa bíður létt snarl fyrir brottför.