Þrátt fyrir að tekið sé að dimma á kvöldin býður náttúran enn í dans.

Um miðjan ágúst læðist að manni grunur um að sumri geti verið að ljúka. Berin hafa blánað á lyngi, lömbin fitnað á heiðum og haustverkin eru farin að knýja dyra. Hugurinn er kominn úr sumarleyfisgír, úr útivist í inniveru, og farinn að huga að daglegum verkefnum; vinnu, skóla og almennu skipulagi lífsins.

Þá vill stundum gleymast að lok ágúst og byrjun september eru dásamlegir tímar til að gefa sér þá gjöf að eyða nokkrum dögum úti í íslenskri náttúru og gista á góðu hóteli. Norðan heiða skarta fjöll og heiðar sínu fegursta, gönguleiðir aldrei betri fyrir sprækt göngufólk og dagarnir enn langir. Við bætist sú dásemd að geta slakað á í húminu að kvöldi eftir góða útivist. Slíkir dagar gefa sálinni nauðsynlega næringu til að takast á við krefjandi verkefni haustsins.

Nyrst á Tröllaskaga bíða berin, lyngið, loftið og litirnir. Urmull gönguleiða skera skagann þveran  og endilegan og fjallasýnin er óviðjafnanleg frá hótelinu.

Gisting og gæði á hótel Sóta Lodge

Við elskum síðsumarið á Sóta Lodge. Oftast er veðrið bjart og hlýtt og aldrei betra að vera úti. Það er ilmur í lofti og pínulítill tregi, sem gefur sérstaka tilfinningu.  Við tengjum dýpra við friðsældina og njótum stundarinnar, hvort sem við erum úti á göngu, fljótum í sundlauginni eða njótum útsýnisins og kyrrðarinnar. Þegar kvöldar, býður norðurhiminninn upp á óviðjafnanlega litadýrð þegar sólin sígur í íshafið og nóttin tekur yfir.

Njóttu síðsumarsstunda hjá okkur

Láttu það eftir þér að treina þér þessa síðustu sumardaga og heimsæktu Fljótin. Á Hótel Sóta Lodge bjóðum við sem fyrr upp á frábæra þjónustu, morgunverðarhlaðborð og þriggja rétta kvöldverð, sem allt er innifalið í verði gistingar. Að auki hafa gestir aðgang að Barðslaug, sundlauginni að Sólgörðum, með heitum potti og sánu.

Það er engin betri leið til að safna orku fyrir veturinn framundan.