Það skal engan undra að gönguskíðamennska njóti vaxandi vinsælda um þessar mundir. Gönguskíðamennska er afar aðgengileg íþrótt fyrir hvern þann sem langar að prófa, um leið og áframhaldandi ástundun hennar kallar á vaxandi þekkingu, tækni og úthald. Gönguskíði eru ein besta alhliða hreyfing sem til er og ekki skemmir fyrir að um leið og líkamsræktin er stunduð af krafti, nýtur fólk útivistar í dásamlegu vetrarlandslagi, gerist landkönnuðir, nýtur félagsskapar og þeirrar vellíðunar sem vetrarupplifun í náttúrunni færir með sér.
Ímyndaðu þér bara: þú vaknar á köldum vetrarmorgni, fær þér góðan morgunverð og nýtur þess að horfa á dásamlegt, snævi þakið landslagið út um gluggann. Þú smeygir þér í gönguskíðagallann, ferð í skóna og stígur yfir þröskuldinn. Þú ert klár í slaginn, festir á þig skíðin og með kröftugri spyrnu hefst ævintýri dagsins.
Um leið og þú virðir fyrir þér landslagið á göngunni gefst fágætt tækifæri til hugleiðslu og núvitundar: þú andar reglulega, virðir fyrir þér hvítt landslagið þar sem það mætir bláum himni og ert í fullkomnu jafnvægi: hér og nú, með tengingu inn í þitt eigið sjálf og náttúruna allt í kring.
Það er vissulega kostur að allt sem þarf til að koma sér af stað í gönguskíðamennsku eru skíði og góðir skíðaskór, auk þægilegs útivistarfatnaðar, en íþróttin býður líka upp á allskonar söfnunartækifæri fyrir þau sem elska góðar græjur. Ýmsar gerðir skíða eru til og þeir sem lengst vilja fara geta eignast þær allar: klísturskíði, skinnskíði, skautaskíði – eftir því sem hæfnin eykst lærir þú að þekkja aðstæður og nota þau skíði sem best gefast hverju sinni.
Sævar Birgisson, námskeiðskennari hjá Sóta, fyrrverandi Ólympíufari og gönguskíðaþjálfari hefur þetta að segja um gönguskíðaíþróttina og námskeið Sóta Summits:
„Skíðaganga er frábær leið til að tvinna saman hreyfingu og útivist. Gönguskíðanámskeiðin hjá Sóta eru sniðin fyrir minni hópa og ekki skemmir fyrir að geta stigið á skíðin rétt við hótelið og gengið af stað. Fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í sportinu þá getur verið gott að fá smá leiðsögn og læra grunnatriðin. Eins má alltaf má gott bæta og því geta þeir sem eru lengra komnir fengið góð ráð til að bæta sína færni enn frekar. Svo myndast skemmtileg stemning á námskeiðshelgunum, það er því skemmtileg tilbreyting og frábær kostur fyrir þá sem hafa áhuga á skíðagönguíþróttinni og njóta þess að vera úti í góðum félagsskap.“
Sóti Summits býður sérsniðnar ferðir fyrir gönguskíðakappa á öllum stigum, auk hópnámskeiða fyrir smærri hópa, sem kynnt eru í vetrardagskrá okkar. Heimahöfn okkar á Sóta Lodge í Fljótum á Tröllaskaga er frábær miðstöð fyrir námskeiðin og tryggir þátttakendum gæðahvíld, persónulega þjónustu og ljúffengar máltíðir á námskeiðsdögunum.
Leitið upplýsinga og bókið: info@sotisummits.is.
Við hlökkum til að sjá ykkur.