Páskahretið tókst bara vel, takk fyrir

Það snjóaði hraustlega á Tröllaskaga um páskana. Þetta reyndi nokkuð á ibúa og gesti hér við nyrstu strandir, sem höfðu hlakkað til að nýta sér brekkurnar í Skarðsdal og fjallaleiðir á Tröllaskaga. Það var lítið um fjallaskíðaferðir, skíðasvæðið í Skarðsdal var lokað flesta daga og óveðrið olli ófærð, þannig að það gat verið krefjandi að komast á milli staða af öryggi.

Alltaf gaman í Fljótum

Það var hins vegar huggun harmi gegn að á föstudaginn langa, daginn sem Fljótamótið var haldið, viðraði vel og þátttakendur nutu þess að keppa í skemmtilegri braut upp af Brúnastöðum. Mótið var aðstandendum til mikils sóma og þau voru himinlifandi með hvernig til tókst.

Gestir í Fljótum gátu skemmt sér við snjóþrúgugöngur og vélsleðaferðir milli élja, auk þess að stunda stífa afslöppun og horfa út í hríðarbylinn þegar þannig viðraði. Barðslaug á Sólgörðum kom einnig sterk inn og bauð upp á hlýju og hreyfingu þrátt fyrir ófærð, en gestir komu sér á staðinn með ýmsum hætti, á velútbúnum bílum, á snjósleðum og á gönguskíðum. Ekki amalegt það.

Nú stirnir á fjöllin

Nú skín sólin og fjallshlíðar á Tröllaskaga eru drifhvítar. Þetta boðar gott  fyrir komandi fjallaskíðaferðir, en við erum jafnframt minnt á mikilvægi þess að vera örugg í vetraraðstæðum. Varað er við snjóflóðahættu og skíðafólk er hvatt til að fara varlega. Það leiðir hugann að mikilvægi þess að nýta sér fagmennsku skíðaleiðsögumanna. Sóti Summits leggur áherslu á öryggi í öllum sínum ferðum og við erum heppin að starfa með hópi reynds, íslensks fjallaleiðsögufólks.

Um leið og við minnum á fyrri skrif okkar um öryggi á fjöllum að vetri, viljum við árétta eftirfarandi leiðbeiningar:

  • Nýttu þér þjónustu fagfólks: veldu fjallaskíðaferðir og þyrluskíðaferðir með reyndum leiðsögumönnum
  • Vertu alltaf með nauðsynlegan öryggisútbúnað: vertu viss um að kunna á hann áður en lagt er af stað í ferð
  • Bættu við þekkinguna þína: nýttu þér námskeið og kennslu um aðstæður og hegðan á fjöllum að vetri
  • Fylgstu með veðurspá: leitaðu nýjustu upplýsinga um veður og aðstæður
  • Vertu í samskiptum: ferðastu með félaga og ræddu við annað skíðafólk

Verið velkomin á fjöll með okkur í vor!

Við minnum á spennandi ferðir í þyrluskíðun í vor.

Missið ekki af tækifærinu til að skíða frá tindum til stranda í einstöku landslaginu á Tröllaskaga; við eigum enn sæti laus í þessi einstöku ævintýri, dagsferðir eða ferðir með gistingu á Sóta Lodge.
Bókaðu núna!  

Einnig eru pláss laus í fjallaskíðaferð 19.-21. apríl, þar sem gist er á Sóta Lodge og lífsins lystisemda notið. Leyfðu þér að njóta dýrðarinnar sem bíður þín í Fljótum!