Sumarið er tíminn…

kyrjuðu kapparnir í GCD hérna um árið. Tími sumarsins virðist samt ekki alveg kominn enn þetta árið. Við hjúfrum okkur enn um stund í vetrarflíkunum, treystum á snjómokstursvélar og bíðum eftir að stytti upp og áttin snúist.

Það haustaði snemma þetta vorið

Gróðurinn sem rétt er farinn að grænka svo mark sé á takandi, myndar fallega andstæðu við hvít snjókornin sem skreyta strá og laufblöð. Hér í fuglaparadísinni í Fljótum hlustum við áhyggjufull á farfuglana, sem kvarta hástöfum yfir aðbúnaði hreiðra og unga. Þetta var ekki það sem lofað var þegar þeir lögðu af stað sunnan að.

Sem betur fer vitum við að öll él styttir upp um síðir. Við bíðum enn spennt og full tihlökkunar eftir því að sumarið bresti á af alvöru, en ekki með þessu gríni sem núna er í gangi.

Það kemur betri tíð

Sóti Lodge hefur opnað fyrir sumargesti og við hlökkum til að taka á móti gestum okkar í sumar. Það er hvergi betra en í Fljótunum að hlaða batteríin og endurnæra andann. Fegurð nátturunnar svíkur aldrei. Hér eru gönguleiðir sem henta öllum, hvort sem ætlunin er að rölta stutt og lesa í náttúruna eða klífa tinda og skríða skriður. Barðslaug býður gesti velkomna í sund og sánu og  atlætið á Sóta Lodge tryggir vellíðan og hvild frá daglegu amstri.

Allskonar útiferðir í allt sumar

Sem fyrr bjóðum við alls konar útivist allt sumarið. Á Siglufirði bjóðum við gestum að rölta um bæinn með okkur í klukkutíma kynnisferð, en einnig lengri gönguferðir, frá síðdegisgöngum í Hvanneyrarskál og til lengri ferða þar sem við uppgötvum nyrsta odda Tröllaskaga í allri sinni dýrð.

Raf-fjallahjólaferðirnar okkar eru alltaf vinsælar, og tilvalið að nýta sér þann möguleika að gista á Sóta Lodge og fara í hjólaferð á tilboðsverði.

Um helgar bjóðum við bátsferðir á eikarbátnum Örkinni, ljúfar og skemmtilegar ferðir fyrir alla, þar sem lónað er um fjörðinn fagra, fræðst um náttúrufar og sögu staðarins og jafnvel rennt fyrir fisk á völdum veiðistöðum.

Komdu og njóttu norðlenska sumarsins!

Eins og fyrri sumur tökum við glöð á móti vina- og fjölskylduhópum sem vilja eyða nokkrum dögum með okkur og kynnast þessu dýrðarsvæði betur. Leiðsögufólkið okkar er heimafólk, sem þekkir vel til og hefur oft persónulega sýn á það sem markverðast er í sögu og náttúrufari. Hópum gefst kostur á að setja saman sína eigin dagskrá, njóta ljúfrar útivistar, flotslökunar í Barðslaug og láta  dekra við sig á Sóta Lodge.

Núna í hretinu er tilvalið að skipuleggja skemmtilega sumarferð og blása lífi í íslenska ferðagleði. Sendu okkur póst á info@sotisummits.is og leyfðu okkur að sýna þér hvað norðlenska sumarið er skemmtilegt!