Sú var tíðin, að Verslunarmannahelgin skar sig mjög frá öðrum helgum sumarsins vegna þess fjölda fólks sem lagði af stað í ferðalag.  Enda ekki furða: helgin er sú eina yfir sumartímann sem býður upp á framlengt helgarfrí. Þar að auki er í águst farið að halla að hausti í hugum fólks. Næturhúmið e farið að setja mark sitt á kvöldin og stutt í upphaf hvunndagsins að nýju. Á síðari árum hafa ferðalög um landið auðvitað magnast. Fólk er á ferðinni í raun allt sumarið, en Verslunarmannahelgi skipar þó alltaf sérstakan sess.

Síldarævintýri

Á Siglufirði hefur skapast hefð fyrir því að koma saman undir formerkjum Síldarævintýris. Upphaflega tengdist hátí

ðin enduruppgötvun bæjarins á merkri sögu sinni, sem segja má að opnun Síldarminjasafnsins hafi hrundið af stað. Sú

saga er enda stórmerkileg og blæbrigðarík. Í gegnum hana birtist sérstætt sjónarhorn á söguna, bæði okkar eigin Íslandssögu, en ekki síður mannkynssöguna á síðari tímum.

Á undanförnum áratugum hefur þannig fjöldi fólks kynnst lífinu á síldarplönum. Það hefur tekið sporin í Síldarvalsi og rölt um safnhús til að dýpka skilning sinn á þessum merka kafla í sögu þjóðarinnar. Þá sögu er mikilvægt að þekkja, en Siglufjörður skartar svo mörgu öðru sem höfðar til gesta. Hér er fallegt bæjarfélag, fjölbreytt menningar- og listasetur að ógleymdri ægifagurri náttúrunni allt upp kring.

Í ár er enn boðað til Síldarævintýris á Siglufirði þar sem markmiðið er að heimamenn og gestir eigi góðar stundir og skemmtilegar. Dagskráin er fjölbreytt og lagt er sérstaklega up úr því að hafa nóg um að vera fyrir börnin.

Fjölbreytt dagskrá

Sóti Summits lætur sitt ekki eftir liggja og býður gestum og gangandi upp á margvíslega afþreyingu:

Á laugardaginn siglir Örkin um fjörðinn og gefur farþegum tækifæri til að rýna í náttúru og sögu frá hafi, auk þess að renna fyrir fisk á grillið. Þetta er ferð sem hefur hlotið góðar undirtektir hjá þátttakendum í sumar. Það er vert að hvetja gesti á Síldarævintýri að nýta sér þetta tækifæri til að njóta sjávarloftsins á þessum fallega eikarbát.

Föstudag og sunnudag eru á dagskrá ferðir í hina rómantísku Hvanneyrarskál kl. 17. Þetta er létt ganga eftir snjóflóðavarnargörðunum í skálina, en á leiðinni verður rýnt í jurtir og landslag.

Alla daga verður sögurölt um Siglufjörð. Sú ferð er skemmtilegur kostur fyrir alla sem vilja eiga huggulega stund og hlusta á sögur á hægu rölti um miðbæ Siglufjarðar. Að auki geta hinir ævintýraþyrstu bókað spennandi raf-fjallhjólaferð alla daga einnig.

Við hlökkum til helgarinnar – og hlökkum til að taka á móti þér.