Um áramót er gott að staldra við og líta yfir farinn veg

Frá því að Sóti Summits hóf starfsemi árið 2020 hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við höfum átt því láni að fagna að fá tækifæri til að spreyta okkur á fjölbreyttum útivistarferðum, sem hafa aukið reynslu okkar. Ekki síður höfum við kynnst margbreytileika náttúrunnar hér á Tröllaskaga, strandlengjunni, fjörðunum, dölunum, fjallaskörðum og fjallstindum. Við höfum róið meðfram stuðlabergsströnd Skagafjarðar á varptíma að vori, stundað skíðamennsku af alls kyns tagi og elt snjólínuna upp með hlíðum eftir því sem dagur lengist. Við höfum gengið og hjólað eftir leiðum forfeðranna milli fjarða og dala.   Við höfum notið kyrrðarinnar og fegurðarinnar sem einkennir nyrstu strandir.

Takk fyrir samveruna

Okkur er um áramót efst í huga þakklæti, til allra þeirra sem komu til okkar í útivistarferðir á síðasta ári, léku sér með okkur á gönguskíðanámskeiðum, í fjallaskíðaferðum og þyrluskíðun. Þakklæti til þeirra sem dvöldu á Sóta Lodge og nutu náttúrunnar í gönguferðum og hjólaferðum. Þakklæti til þeirra sem kíktu við, hjóluðu, röltu, gengu og sigldu með okkur um Siglufjörð. Og síðast en ekki síst, þakklæti til Tröllaskagans, sem býður okkur þetta veisluborð fegurðar og útivistar.

Maður er manns gaman

– og það var svo sannarlega gaman að vera með okkar frábæru gestum á árinu.

Nú þegar við snúum okkar að árinu 2024 viljum við minna á að það eru enn örfá pláss laus á gönguskíðanámskeiðunum okkar vinsælu, sala fjallaskíðaferða er í fullum gangi , námskeiðið okkar með Leifi Erni og Söru bíður þeirra sem vilja fræðast og ferðast af öryggi – og okkar snarpa þyrlu- og fjallaskíðaferð bíður hinna ævintýraþyrstu.

Gleðilegt ár – og sjáumst sem allra fyrst í útivistarferð með Sóta!