Sumarið hefur verið okkur gott hér á Tröllaskaga. Við höfum notið bjartra sólardaga í ofgnótt, skoppað upp um fjöll og með strandlengjuhjólað inn dali og skoðað fossa glitra í sólskininu. Við höfum róið meðfram ströndum, en ekki síst bara notið þeirrar blessunar sem blíðviðri á Íslandi er vetrarþungum skrokkum. 

Nú læðist haustið að okkur.  Haustið á Íslandi er ekki síður dásamlegur tími. Berin liggja þroskuð og bíða þeirra sem vilja vitja þeirra. Veiðimenn munda vopn sín og taka fram veiðigallann. Sauðfé kemur feitt af fjalli og uppskera á jörðum og í görðum boðar gósentíma fyrir matgæðinga. Litbrigði gróðurs eru aldrei fegurri en á haustin og gera hverja útiveru að upplifun.

Þá passar að kveikja á kertum og upplifa myrkrið sem við höfum endurheimt frá sumrinu. Núna viljum við fá tíma til að njóta, sækja í hlýju og finna jafnvægið sem er svo nauðsynlegt til að takast á við sviptingar vetrarins. Núna er gott að draga djúpt andann og leyfa sér bara að fljóta. Núna er rétt að njóta ljúfra stunda með vinum og fjölskyldu. 

Sóti Summits býður ykkur að ferðast inn í haustið með sér. Við bjóðum sérhannaða ferð fyrir matgæðinga undir styrkri stjórn Alberts Eiríkssonar um miðjan september, þar sem við förum í berjamó og kynnum okkur líka allar gersemarnar sem er að finna hér á ystu ströndum Tröllaskaga. Við höfum sett saman sannkallaða dekurhelgi sem veitir næringu, kraft og gleði. Veiðimenn eru velkomnir á Sóta Lodge í nóvember og fyrir þá sem bíða óþreyjufullir eftir fyrstu snjófölinni höfum við sett á dagskrá okkar vinsælu skíðagöngunámskeið, þar sem byrjendur jafnt sem lengra komnir fá persónulega leiðsögn í litlum hópum og njóta hinnar rómuðu gestrisni á Sóta Lodge. Og svo er líka bara hægt að kaupa helgarpakka og hanna sjálf ykkar eigin upplifun – við aðstoðum með mikilli ánægju. 

Við bjóðum ykkur velkomin inn í haustið með okkur. Sjáumst sem allra fyrst.