Gengið í fallegri náttúru Siglufjarðar um söguslóðir

Ferðin hefst við skrifstofu Sóta Summits að Suðurgötu. Þar hitta gestir leiðsögumann og sameinast í bila, en rétt rúmlega 5 mínútna keyrsla er frá skrifstofu að upphafsstað göngunnar við flugvöllinn innst í firðinum.

Leiðarlýsing

Eftir að við höfum skilið bílana eftir við enda flugbrautarinnar hefst gangan. Við göngum neðan fjallsróta austan Siglufjarðar, ofan við Staðarhólsengi á leið okkar að Selnesvita. Á leiðinni hittum við fyrir fugla sem gera sér nesti í ónytjuðum túnum fyrrum Staðarhólsbænda njótum grösugra hlíða og blómskrúðs og þræðum hlíðar og einstaka mýrarfláka. Frá Selnesvita er mikið útsýni á Siglunes, þaðan sem síðustu ábúendurnir fluttu árið 1988.

Upp af Selvíkurvita í austri opnast lítill dalur, Kálfadalur og ef tími gefst munum við ganga upp að Kálfadalsvatni. Þar ríkir kyrrðin ein og mikil náttúrufegurð.

Gangan tilbaka að upphafsstað leiðir okkur um söguslóðir á Siglufirði. Við munum ganga gegnum rústir Evangerverksmiðjunnar, síldarverksmiðju sem tók til starfa af miklum metnaði árið 1911. Hún, ásamt litlu þorpi sem risið hafði umhverfis verksmiðjuna, gereyddist í gríðarlegu snjóflóði sem féll árið 1919. Ennþá má sjá menjar um þá starfsemi sem áður var, í árdaga síldarævintýrisins á Siglufirði.

Mýrlent er á staðarhólbökkum, þannig að göngumenn þurfa að vera viðbúnir að vökna ögn í fætur.

Reyndur leiðsögumaður mun fylgja hópnum, lesa í náttúruna og rekja sögu fjarðarins.

Vegalengd: 8 km

Tími: 3.5 – 4 klst

Leið: Siglufjarðarflugvöllur – Staðarhólsströnd – Selvíkurviti – Evanger rústir

Tímasetningar:

Daglega frá 1. júlí kl. 10

Innifalið í verði

  • Leiðsögn

Nauðsynlegur búnaður

  • Nesti og drykkir
  • Léttur bakpoki
  • Traustir gönguskór
  • Regnjakki og regnbuxur
  • Húfa og vettlingar